Dagur 15 - loka ferðar

Dagur 15. 29. Maí. Dumas í Arkansas til Columbus í Missisippi. 240 mílur.

Moskítóflugurnar höfðu unnið heimavinnuna sína um nóttina og menn voru aumir og bólgnir á hinum ýmsustu stöðum. Það var greinilegt að við vorum komnir inn á vatnasvæði Missisippi árinnar. Það var um 24º. hiti og frekar frísklegt loft sem mætti okkur á fyrsta áfanganum. Við fórum veg 65 í suður að brúarstæði við Greenville í Missisppi. Brúarstæði við ána eru fá og þurfa menn oft að leggja lykkju á leið sína. Áin birtist óhemjubreið í gegnum skógarrjóðrið við árbakkann. Þegar nær dró varð smám saman allt umflotið vatni og aðkeyrslan að brúnni er á stöplum langa vegu beggja vegna. Við fórum yfir fljótið, það var stórfenglegt, mjög breitt og vall áin fram að miklum þunga. Við ókum inn í Greenville, nú var það svart maður ! Hér var ekki hvítan mann að sjá, og þegar við tókum eldsneyti, birtist okkur fátækt og iðjuleysi í sinni verstu mynd. Fólk hékk á götuhornum í sólinni og hitanum og virtist ekki vera að bíða eftir neinu. Við spurðum til vega, en enginn virtist vita hvar miðbærinn var, og enn síður hvaða veg skildi tekið í austurátt. Við flýttum okkur áfram veg 82, umvafin vatnsósa ekrum, til Greenwood og tókum þar hádegishlé. Þetta er höfuðborg bómullariðnaðarins. Eftir erfiðan dag Málið sem fólkið talar er illskiljanlegt, en allir tóku okkur vel. Einn maður sá IS merkið á hjólunum okkar og sagði að það var svöl spá á Íslandi núna, og við værum heppnir því nú væri svalt í veðri hér. Hitinn var 29º og fór hækkandi þegar líða tók á daginn. Við ókum áfram veg 82 umvafin laufskógi, gegnum campusinn á Missisippi State University og til Columbus þar sem við ákváðum að gista. Á þessari leið fór hitinn hækkandi, landslagið varð hæðaóttara og hvítum andlitum fór fjölgandi. Vegurinn var lélegur síðasta spottann vegna vegaframkvæmda, og svo var fjarskiptabúnaðurinn farinn að gefa sig, þannig að samskipti reiðmanna urðu stopulli. Það kom ekki að sök, við fengum góða gistingu á Comfort Inn og sturtan var sú besta og kraftmesta sem við höfðum prófað lengi. Eftirmiðdagssólin er heit og sterk og tilvalið er að sitja undir sólhlíf og fá sér síðdegishressingu. Félagar ræddu málin og höfðu sína venjulegu "díbrífingu" Hópurinn var farinn að slípast saman og sögurnar sem engum öðrum verða sagðar runnu nú af vörum fram.

 Við höfum átt í miklum vandræðum með Internetsamband á leiðinni, þannig að beita hefur þurft brögðum og krókaleiðum til að komast í samband við umheiminn, en oftast hefur það tekist Það er alltaf gaman að skoða tölvupóstinn frá þeim fjölmörgu sem senda okkur kveðjur og fyrirspurnir Við skelltum okkur í ódýrt kínverskt buffet og svo í háttinn.

Dagur 16. 30. Maí. Columbus í Missisippi til Scotsboro í Alabama.

Engin dagur er öðrum líkur, það átti eftir að sannast þennan daginn. Við komust af stað snemma, en urðum að fara í viðgerðir á fjarskiptabúnaðinum sem allur var farinn að liðast í sundur á viðkvæmum stöðum í snúrukerfinu. Við keyptum gasdrifinn lóðbolta og tin í næstu búð og breyttum ruslatunnu fyrir utan "mollið"  í rafmagnsverkstæði.

Að viðgerðum loknum héldum við af stað, og nú var sambandið betra milli reiðmanna. Það var bjart veður og hitinn var um 25 gráður og hækkaði heldur þegar leið á daginn. Við héldum veg 82 í austur, síðan veg 17 í norður og inn á veg 69 sem við áttum eftir að aka mestan hluta dagsins gegnum fallegar sveitir í dæmigerðu Suðurríkjaumhverfi. Við fórum í gegnum marga smábæi og tókum hádegishléið á The Kooler í Jasper. Við fengum þar dæmigerðan heimatilbúinn mat og varð vel af. Sveitirnar sem við tóku voru mjög fallegar. Vegurinn liðaðist um þykka laufskóga, og stórir fallegir garðar með fallegum húsum voru á hverju strái. Eftir matinn sótti að reiðmönnum þreyta og því var ekki annað að gera en að kasta sér til hvílu á næstu grasflöt sem fannst. Fyrir valinu varð vel slegin grasflöt á Bremen Misionary Baptist church, var það góð hvíld og gátu menn náð að dotta aðeins í eftirmiðdagssólinni. Hér á slóðum eru efni manna greinilega meiri en þar sem við höfðum verið daginn áður, nokkuð fyrir vestan. Einu höfum við þó tekið eftir, að hér er mun minna af mótorhjólum og gátu heimamenn ekki útskýrt fyrir okkur af hverju það gæti stafað. Í öllu Alabamafylki höfum við kannski rekist á hjól sem teljandi væru á fingrum annarar handar. Við komum að lokum til bæjarins Guntersville og áðum þar við Tennesse ánna þar sem hún hefur verið stífluð. Þar hefur myndast stórt stöðuvatn umvafið þykkum skógi líkt og stundum sést bregða fyrir á Norðurlöndum. Þar var fólk að setja út hraðbáta í eftirmiðdagssólinni. Tókum við spjall við heimamenn sem vísuðu okkur veginn áfram. Ekið var veg nr. 79 meðfram vatninu mjög fallega leið sem lág við ströndina. Við fundum gistingu í Scotsboro á Scottish Inn. Það mótel rekur vinalegur Indverji sem hefur nú búið 14 ár hér vestra. Við gátum lagt fákunum fyrir utan gluggann vegna væntanlegrar rigningar, og hentum okkur þreyttir í rúmin. Nágrannar okkar eru Mexíkanskir verkamenn sem litla ensku tala. Nú var ferðaþreytan farin að segja til sín og dröttuðust menn á næstu pítseríu og reyndu að vera hressir, en rúmið var vel þegið þegar heim var komið og Óli Lokbrá tók fljótt yfirhöndina.

Dagur 17. 31. Maí. Scotsboro í Alabama til Athens í Georgia 240 mílur.

Það hellirigndi um nóttina. Kafteinninn hrökk upp við vondan draum, tveir Harley töffarar voru að fara fram úr honum sitt hvoru megin. Þegar hann náði áttum kom í ljós að herbergisfélagar hans voru við stífar aftankokssöngæfingar í fasta svefni. Áhafnarmeðlimir voru ræstir með einkunnarorðum ferðarinnar "drífa sig"  Þá var eiginlega komið að öðrum einkunnarorðum ferðalagsins, en það er "enginn dagur er öðrum líkur".  Það átti eftir að sannast enn einu sinni þennan dag. Við ókum af stað í þungbúnu veðri og regndropar féllu á hlífðarglerin. Við fórum á brú yfir Tennesse ánna og ókum hlykkjóttan veg 40 í austur gegnum hæðótt fjöllin. Það var þykkur laufskógur sem minnti okkur dálítið á umhverfið í norðurhluta Kaliforníu sem við höfðum farið um hálfum mánuði áður. Það var þungbúið í fjöllum og hitinn rétt skreið yfir 20ºC. Við áðum við fylkismörk Georgiu og fengum okkur orkuríkan "brunch"hjá Dessie, fullorðinni konu sem rekur "Kontry Chef" ,veitingastaðinn í bænum Mentone. Sterkara kaffi höfum við ekki fengið á ferð okkar, en víðast hvar má líkja því við tevatn.

Eftir nokkrar mílur fórum við yfir fylkismörkin og nú inn í nýtt tímabelti. Við tókum veg 20 í austur gengum Rome og síðan út á hraðbraut 75 inn til Atlanta. Ferðinni var heitið að hitta Pat Ebbs, hjá Ebbs Aviation,

flugskyli

 

en Kapteinninn hafði hitt hann á Grænlandi og keypt af honum flugvél árið 1990. Ebbs þessi stýrði leiðangri Bandaríkjamanna sem björguðu P-38 flugvél af Grænlandsjökli. Þegar nær dró Atlantaborg þá varð umferðin þyngri, og hraðari. Okkur leið eins og mýflugum í gæsahóp í oddaflugi á sex akreina hraðbrautinni. Hitinn fór hækkandi og steig í 30ºC. Eftir smá króka komust við að Peachtree flugvellinum þar sem flugmiðstöð Ebbs er. Þar urðu fagnaðarfundir og leiddi Ebbs okkur um flugskýli sín og sýndi flugvélakost. Við settumst síðan niður með félögum hans úr Grænlandsleiðangrinum,skoðuðum myndir og hlýddum á frásögn þeirra á flugvallarkránni úti við "rampinn" í sól og hita. Tíminn leið allt of hratt. Við vorum boðnir í kvöldmat hjá Guðrúnu Arnardóttur frjálsíþróttakonu, frænku Guðmundar Bjarnasonar í Athens, um 50 mílur austan við Atlanta. Við ókum greitt austur eftir hraðbraut 85 og lentum í eftirmiðdagsumferðarteppu í talverðri hitasvækju. Það leystist úr þessu og þá tóku við miklar æfingar við að finna staðinn. Þar kom enn í ljós hversu mikilvægt er að hafa góðan fjarskiptabúnað. Við fundum loksins Benedict Court og var tekið vel á móti okkur, með grilluðum kjúkling og meðlæti að hætti Suðuríkjamanna sem eiginmaðurinn hafði matreitt. Við lágum útslegnir í mjúkum sófunum,ræddum málin, og fengum að kíkja netið.

Það kom í ljós að meira en 1800 manns höfðu skoðað heimasíðuna okkar, okkur til mikillar ánægju. Það er greinilegt að margir upplifa þessa ferð með okkur, og er það vel. Það var komið myrkur þegar við ókum gegnum bæinn að Holliday Inn hótelinu í miðbæ Athens, þar sem við gistum. Skömmu síðar brást á með slagveðursrigningu ásamt þrumum og eldingum sem lýstu upp herbergið eftir að ljósin voru slökkt. Var gott að vera kominn undir sæng, og datt manni helst í hug slæm haustveður á Íslandi þegar rigningin lemur gluggann og Kári ýlfrar við húsvegginn.

Dagur 18. 1. Júní. Athens í Georgiu til Fernandina Beach í Flórída 340 mílur.

Það hellirigndi alla nóttina og það rigndi enn þegar við vöknuðum. Veðurspáin var ekki björt fyrir daginn en það var hlýtt í veðri, um 18ºC til að byrja með en fór upp í 25ºC. þegar leið daginn. Við ákváðum að koma okkur af stað þrátt fyrir dembuna. Við tókum veg 78 í austur og síðan veg 1 suður, en það er gamli þjóðvegurinn milli fylkja. Það var þungbúið veður alla leiðina, fyrst hellirigning í 25 mílur og síðan blautt næstu 35. Síðan lentum við í öðrum skúr seinnipartinn. Vegurinn liggur gegnum skóga og síðan um marga smábæi. Þetta gaf okkur tíma til að virða fyrir okkur mannlífið sem var margbreytilegt. Í sumum bæjum voru innfæddir nær eingöngu svartir en í öðrum hvítir. Húsakostur var misjafn og sumstaðar ríkmannlegur en annarstaðar mjög hrörlegur. Það lífgaði upp á daginn að við lentum í frábærum hádegisverð, hlaðborði á Ryans veitingahúsinu í Thompson. Í sveitinni... Þar fengum við frábæran Suðuríkjamat, eins og okkur lysti. Þetta lífgaði upp á annars blautan og tilbreytingalausan dag. Það var góð tilfinning að komast yfir fylkismörk Flórída. Enn frekar lyftist á okkur brúnin þegar við ókum inn á veg A1A inn að ströndinni fyrir norðan Jacksonville. Nú var orðið þurrt, og ilmur Karabíska hafsins fannst nú í loftinu. Við renndum inn í bæinn Fernandina Beach og sáum Atlantshafið. Við stóðum af fákunum og fögnuðum þeim áfanga að hafa farið yfir heila heimsálfu á mótorhjóli. Við fundum ágætis gistingu en frekar dýra á Best Western, en það var þó ódýrara en víðast á þessu svæði. Við vorum í fallegum líflegum strandbæ, og það var líflegt mannlíf. Í ljósaskiptunum gengum við niður að ströndinni og snertum Atlantshafið, líkt og við höfðum gert við Kyrrahafið þegar við kvöddum klettana við Oregon strönd rúmum hálfum mánuði áður. Tilfinningin var einstök, við höfðum náð markmiði ferðarinnar. Að sjálfsögðu var fagnað á tilheyrandi hátt, og snæddum við sjávarétti að hætti heimanna um kvöldið. Sögur og minningar úr ferðinni voru okkur ofarlega í huga og entust okkur langt fram á nótt í skemmtilegu spjalli. Nú var stutt heim til Orlando og ákveðið að taka síðasta daginn rólega, njóta strandvegarins og mannlífsins á lokasprettinum.

Síðasti dagur. 2. Júní. Fernandina Beach í Flórída til Orlando í Flórída. 220 mílur.

Síðasti dagur ferðarinnar var runninn upp og það var hugur í mönnum að komast á áfangastað. Við ókum veg A1A niður með ströndinni og kræktum fyrir Jacksonville flóan yfir mikla brú. Það var sól og til að byrja með um 25ºC hiti en fór upp í um 30ºC þegar á daginn leið. Það voru þung ský í fjarska. Við áðum í St.Augustine, sem er bær sem á rætur sínar að rekja til tíma Spánverja, sem voru fyrstir Evrópubúa til að setjast að á þessum slóðum. Þar er mikið gamalt virki sem var gaman að skoða. Síðan lág leiðin niður til Daytona Beach og á leiðinni mættum við fjölda mótorhjólamanna og kvenna, aðalega á HD, á laugardagsrúntinum. Áætlunin gerði ráð fyrir að við yrðum kl 1600 í Orlando og biðu vinir og ættingjar óþreyjufullir eftir okkur þar. Ferðalok við Atlantshafið. Við náðum að skjótast í myndatöku á ströndinni og brunuðum síðan suður. Það hafði hellirignt skömmu áður og allt á floti, og á um 300 m. kafla á leiðinni yfir brú fengum við á okkur volga skúra en blotnuðum ekkert að ráði. Það var mikil umferð niður A1A og við fórum inn á veg 1 suður af Daytona. Tíminn var að hlaupa frá okkur og við tókum því smá sprett á harðbraut 95 í suður og komust loks inn á veg 50 inn í Orlando. Það voru langar 35 mílur í mikilli umferð og hita þegar við komum inn í borgina. Við sveigðum inn í Ventura Country Club þar sem við gistum og tóku litlu strákarnir á móti okkur. Þeir fengu stoltir að sitja á fákunum síðasta spottann og finnast þeir hafa farið hálfa leið um Ameríku með okkur. Það var fjöldi manns sem beið okkar á Santa Monica Drive, og fagnaði ferðalöngunum. Við vorum komnir í mark heilir á húfi, og klukkan var um 16.30 á staðartíma. Upphófust mikil veisluhöld skálaræður og gleði sem stóð langt fram á nótt.

 

Uppgjör - í ferðalok.

 Æskudraumurinn hefur verið uppfylltur ! Tilfinningin ?, Já hún er engu lík, stórkostlegt er ekki rétta lýsingarorðið, það nær ekki réttri breidd og dýpt. Þá erum við loksins komnir á áfangastað heilu á höldnu og höfum ferðast 4689 mílur eða 7545 kílómetra yfir þver Bandaríki N Ameríku. Við höfum farið í gegnum 12 fylki á 19 dögum. Hjólin eru kominn inn í bílskúr og hvíla næstu ferðar. Við gerðum það sem marga dreymir um að fara þvert yfir Ameríku, heila heimsálfu á mótorhjóli og höfum farið yfir þrjú timabelti. Okkur tókst það sem við héldum að við myndum aldrei ná og hvað þá að leggja út í .Það er þrekvirki andlega og líkamlega að takast á við heila heimsálfu, ekki það að við séum að miklast af því, það er einfaldlega staðreynd.

Það er ekki hægt að lýsa því hvernig er að ferðast um á mótorhjóli þvert yfir Bandaríki Norður Ameríku, upplifa breytingar á veðri, landslagi, gróðri, lykt, hitastigi, rakastigi, fólki, litarhætti, trúarbrögðum, menningu, arkitektúr, efnahag, viðmóti, og svo mætti lengi telja. Þetta er ólýsanlegt og menn verða bara að upplifa það sjálfir. Þetta er þolraun, sem tekur á líkama og sál. Við erum fegnir því að allt gekk vel og erum þakklátir þeim sem næst okkur standa fyrir að veita okkur tækifæri og sýna skilning á að því að við urðum að takast á við þennan æskudraum. Við erum líka þakklátir okkur sjálfum fyrir að leyfa okkur að láta hann rætast.

Það er heilsusamalegt að láta drauma sína rætast. Við fyllumst nú einhverri innri ró sem erfitt er að lýsa, líklega hafa landkönnuðir allra tíma sótt í sama brunn og við. Hjólin reyndust frábærlega vel, smávægileg óhöpp en engar bilanir. Það er töluverður munur á þeim Honda Gold Wing er flatur 6 sýl. 1500 cc, Kawasaki Voyager er með 4 sýl þverstæðri línuvél 1200 cc. Honda Pacific Coast er 2 sýl V-2 800 cc. Öll eru hjólin vatnskæld 5 gíra og með drifskafti. Stærri hjólin eru betri á löngu ferðalagi, en minna hjólið er snarara í snúningum og léttara í þröngum aðstæðum. Það er svipuð vinnsla í þeim, þó mest í Gold Wing hjólinu en það eyðir um þriðjungi meira en Pacific Coast hjólið. Þannig fórum við sjaldan lengra en 150 mílur í einu án þess að taka eldsneyti. Skermar eru nauðsynlegir á svo löngu ferðalagi. Við vorum með tiltölulega lítið af farangri, og gátum þvegið af okkur á leiðinni. Ómetanlegt hefur verið að vera í Internetsambandi með fartölvu.

Það hafa verið erfiðleikar við að tengjast á sumum stöðum, og sumstaðar eru símkerfi einfaldlega ekki útbúin fyrir slíkt. Það er greinilegt að Bandríkjamenn standa okkur litlu eyþjóðinni í norðri miklu aftar hvað þetta varðar. Skildi engan undra, sumir sem við hittum höfðu aldrei komið út fyrir fylkið sitt og héldu jafnvel að það væri hægt að aka á bíl til Íslands. Jú, Ísland var þar sem Keiko á heima, og það var einhverstaðar út af New Jersey. Það reyndist auðvelt að fá gistingu, og kom sjaldan fyrir að allt væri fullt, en við leituðum að hagstæðum kjörum alstaðar. Meðalverð á gistingu fyrir þrjá í herbergi var bilinu 50-70 dollara. Það kom fyrir að við pöntuðum daginn áður, en það var ekki nauðsynlegt. Það var gnægð af veitingastöðum allstaðar, góður fjölbreytur matur á hagstæðu verði. Ferðamannatíminn var ekki hafinn þegar við vorum á austurströndinni, en var að komast í gang nú í ferðalok.

Við reyndum að fara af stað ekki seinna en 9 á morgnanna, taka góðan sprett fram yfir hádegi og tókum þá hlé, og reyndum að koma okkur í gistingu ekki mikið seinna en um 5 leytið á eftirmiðdögum. Eftir rúmlega 200 mílur er það fínasta farið úr knöpunum sérstaklega af því að við völdum frekar krókótta hliðarvegi, sem voru krefjandi. Akstur á hraðbrautum er ekki spennandi og jafnframt hættulegt viðfangsefni. Mælum við eindregið með því að sem minnst sé gert af því. GSM farsímasamband sem við erum áskrifendur að og Landsíminn hefur samið um í Bandaríkjunum hefur verið ákaflega takmarkað. Ekki hefur verið hægt að reiða sig á það á ferðalaginu eins og vænst var til , sérstaklega ekki fyrir þá sem þurfa að sinna viðskiptum heima á Íslandi, þar sem tímamunur þrengir viðskiptadaginn niður í örfáa klukkutíma. Sífelld hlaup í símasjálfsala með símakortum og skiptimynt eru þreytandi til lengdar, en ódýrara og við létum okkur hafa það. Heilræði.

Nú er kominn tími fyrir heilræði fyrir alla riddara götunnar. Þau verða aldrei of oft sögð.

1. Aktu alltaf miðað við aðstæður, bleyta er stórhættuleg og olíublettir geta leynst víða. Það verður að vera hægt að stöðva hjólið á því svæði sem frjálst er framundan.

2. Vertu í varnarstöðu - aktu alltaf eins og verið sé að reyna að aka þig niður. Þú verður að horfa í augun á öllum sem bíða á gatnamótum og hliðarvegum og vera viss um að þeir sjái þig. Treystu ekki á rétt þinn í umferðinni. Það er betra að gefa eftir en að þverskallst og liggja í götunni á eftir.

3.Aktu með ljós, helst háa geisla, vertu áberandi klædd(ur )og sparaðu ekki flautuna til að láta vita af þér. Þegar sól er lágt á lofti getur þú auðveldlega blindast, og það geta aðrir í umferðinni líka gert. Hjálmur og hlífðarfatnaður er skilyrði.

4.Góð hvíld er nauðsynleg. Þreytan er mikill óvinur, deyfir athygli og seinkar viðbrögðum. Hollt fæði er mikilvægt, skyndibitafæði eingöngu mjög óæskilegt. Áfengi, þar með talinn bjór er bannvara þar til fákum hefur verið lagt og lyklar komnir í vasa. Lítið magn slævir einbeitingu og viðbragðstíma. Árangur næst með góðum undirbúningi, aga og skiplagi.

Við lágum heilan vetur yfir kortum og ferðabókum. Við völdum útbúnað af kostgæfni. Þá lásum við reynslusögur annarra ferðalanga af svipuðum slóðum á netinu. Það þarf að “drífa sig” af stað á morgnanna og halda skipulagi. Margt er hægt að staldra við og skoða en það verður að velja. Án góðs liðsanda og samheldni er svona ferðalag óhugsandi.

Sú setning sem kannski lýsir þessu ferðalagi best er "að engin dagur er öðrum líkum", og kannski önnur sem einn Bandaríkjamaður í Orlando, sem við rákumst á sagði " you have seen the real world boys -welcome to the makebelieve world"

Sérstakar þakkir fá: Vinir og ættingjar sem studdu okkur og sendu baráttukveðjur. Heiðar Jónsson, Vancouver WA, án hans hefði þetta varla verið hægt. Þjálfari okkar og heimasíðustjóri Egill "knastás" Ibsen. Sindri Sveinsson, Minniapolis og Heiðar Jónsson Oregon. Allir þeir fjölmörgu við hittum á leiðinni og gáfu okkur góð ráð. Morgunsjónvarp Stöðvar 2. Honda umboðið. Vífilfell. Visir.is Mbl.is enduro.is Hjörtur "líklegur" fyrir að vera landkönnuður Enduroslóða Íslands. o.fl. o.fl. o.fl.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband