Dagur 1 - 7

dagbok

Sagan.

Það hafði lengið blundað í okkur félögum, reyndar í mörg ár, að fara "ferðina einu sönnu", þvert yfir bandaríkin, Route 66 og allan pakkann.  Við ákváðum haustið 2000 að það hefði engan tilgang að vera að fresta þessu, við skyldum drífa í þessu.  Þetta blog eru færslur sem við gerðum fyrir, og á ferðalaginu.  Við settum upp heimasíðu og fengum fleiri þúsund heimsóknir eftir að morgunblaðið og stöð 2 fjölluðu um ferð okkar.  Þessi ferð fékk reyndar nafn hjá okkur síðar þegar við vorum að skoða myndirnar - " Enginn dagur öðrum líkur "

 

Hér kemur sagan lítið breytt...........

 drrider

                     "Dr. Rider" 

 

 

Ferðalangar og farskjóttar.

Guðmundur Bjarnason tæknifræðingur Kawasaki Voyager 2000, innbyggðar ferðatöskur.

Guðmundur Björnsson læknir Honda Pacific Coast 1998, innbyggðar ferðatöskur og Joe Rocket töskur.

Ólafur Gylfson flugstjóri. Honda Gold Wing 1995, innbyggðar ferðatöskur. Búnaður: Hjálmar, hlífðarfatnaður með innbyggðri brynju.

Yaesu VHF talstöðvar frá Radíoþjónustu Sigga Harðar með hljóðnema og hátölurum í hjálmi. Dell ferðatölva. Leica Digilux stafræn myndavél. Sony DCR TRV 900 E, þriggja flögu stafræn myndbandsvél.

Undirbúningur.

Við félagar hittumst allir Laugardaginn 12. Maí á heimili Heiðars Jónssonar í Vancouver í Washington fylki. Heiðar hefur búið í mörg ár fyrir vestan og stundað verslunarstörf , en er nú að mestu sestur í helgan stein.

Undirbúningur hafði staðið allan veturinn, en hugmyndin að ferðalaginu kviknaði s.l. sumar. Ólafur keypti Honda Gold Wing hjól í Indianapolis um áramótin, sem þurfti lagfæringar við. Heiðar keypti hjól fyrir Guðmund Björnsson í Oregon og flutti heim í bílskúr hjá sér í febrúar. Þá keypti Heiðar laskað hjól fyrir Guðmund Bjarnason. Guðmundur Bjarnason var því mættur nokkrum dögum áður til viðgerða og samsetningar á hjólinu og Ólafur ók sínu hjóli 2000 mílur til að hitta félaga sína.

Það urðu nokkur vandræði á síðasta degi við skrásetningu á einu hjólinu, en síðan var lagt í hann. Það var ásetningur okkar ferðalanganna að kynnast Bandaríkjum N Ameríku fjarri ys og þys hraðbrauta og stórborga.

Dagur 1. 15. Maí. Vancover í Washington fylki til Yachts í Oregon , 203 mílur. 

Lagt var af stað upp úr hádegi, veður var frekar þungbúið enda kom á daginn að það rigndi vel á okkur í fyrsta áfanga og varð að fara varlega á vegunum. Menn urðu dálítið blautir, en mesta furða m.v. erfiðar aðstæður. Farið var suður hraðbrautina og síðan ekið gegnum fjöllin til Newport á Kyrrahafströndinni, þar sem Keiko átti einu sinni heima. Þar fór heldur að stytta upp og þaðan var ekið meðfram ströndinni til smábæjarins Yachats, þar sem gist var á mótelinu Dublin House.

Um kvöldið hvíldu menn sig, enda þreyttir eftir erfiðan undirbúning en glaðir að vera komnir af stað. Snætt var á góðum veitingastað og síðan bauð Sheryl barþjónn upp á drykkinn Coast to coast sem hún blandaði sérstaklega fyrir þreytta ferðalanga.

 

adkvoldi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dagur 2. 16. Maí. Yachts í Oregon til Eureka í Kaliforníu, 301 mílur.

Vaknað var snemma og veður nú orðið skaplegra um 15°C og að mestu þurrt. Sjórinn í Kyrrahafinu var snertur, en það sama skyldi gert þegar komið var yfir heimsálfuna að Atlantshafinu. Haldið var af stað í björtu veðri suður á bóginn. Farið var um veg 101 meðfram Kyrrahafströndinni. Leiðin er mjög falleg Áð var í Florence og snæddur dæmigerður Amerískur morgunmatur, og svo var haldið áfram mjög fallega leið suður ströndina. Þar mætir úfið Kyrrahafið klettum og vegurinn er í sveigum þar á milli. Farið var til Eureka í N Kaliforníu, en Einar Thoroddsen læknir sem var þarna á ferð fyrir nokkrum árum á mótorhjóli, mælti sérstaklega með þeim stað. Komið var þangað um sjö leytið og gist var um nóttina. Þreyttir ferðalangar pöntuðu sér pítsu á herbergið og fóru snemma að sofa.

 

hopmynd

 

 

 

 

 

 

                 " North California"

 

Dagur 3. 17. Maí. Eureka í Kaliforníu til Shingeltown í Kaliforníu, 183 mílur.

Veðrið var þurr og fallegt að morgni, hiti um 15°C kl 9 um morguninn. Eftir að hafa tekið eldsneyti og sinnt farskjótunum, var haldið um veg 299 gegnum fjöllin í N Kaliforníu. Fljótlega var komið inn í fallega skógivaxna dali og ekið með á sem þar rennur um. Því lengra sem haldið var varð umhverfið stórkostlegra, og vegurinn hlykkjaðist um hálendið milli djúpra dala og hárra fjallaskarða. Myndastoppin urðu mörg, enda útsýnið og veðrið stórkostlegt. Ekið var í gegnum Redding og undir þjóðveg 5 og áfram til Shingeltown. Á þeirri leið fór hitinn hækkandi og komst í 30°C á láglendi. Í Shingeltown var komið um 16:30 og áð. Þar var leitað að möguleikum á gistingu, og kom í ljós að systir afgreiðslustúlkunnar í bæjarbúðinni rak gististað þar nálægt. Þótti mönnum kjörið að stoppa þar eftir erfiðan og heitan dag. Í ljós kom að aðstæður voru í það minnsta sagt frumstæðar, en menn létu sig hafa það og fengu grænan slitinn kofa til umráða sem hefði getað verið ágætis vegavinnuskúr á Íslandi. Þreyttir ferðalangar settust niður í skóginum í algeri kyrrð, fjarri GSM og Internetsambandi. Veitingastaðurinn Big Wheel var þar í göngufæri, ágætis sveitakrá þar sem ferðalangar snæddu og fengu sér hressingu með innfæddum. Vistin í skúrnum var ágæt og nágrannar sem margir búa þar allt árið við kröpp kjör voru vingjarnlegir. Nóttin var friðsæl með árniðinn nálægt sem ágætis svefnmeðal.

 

kyr

 

 

 

 

 

 

 

 

Dagur 4. 18. Maí. til Shingeltown í Kaliforníu til Reno í Nevada. 210 mílur.

Lagt var í hann snemma í fallegu en svölu veðri. Það var mikil kyrrð í skóginum. Eftir u.þ.b. 20 mílur var komið inn í Lassen Volcanic þjóðgarðinn. Aðgangseyrir var $5 á mann. Vissu menn ekki fyrirfram hvort það yrði peninganna virði, en annað kom í ljós. Eftir að hafa farið krókótta vegi gegnum skóginn, fór vegurinn að stefna upp á við og lág hæst um 8000 fet yfir sjávarmáli. Ekki er hægt að lýsa með orðum því útsýni sem nú bauðst. Vegurinn sniglaðist í kringum hátt fjall, og efst upp var töluverður snjór til hliðar við veginn. Það var sól, en hitinn fór niður í 7°C efst uppi í algeru logni. Þegar komið var út úr þjóðgarðinum var ekið gegnum skóga og meðfram giljum niður á sléttuna í átt að Nevada. Þar breyttist landslagið skyndilega og við tóku sólbrunnir klettar og síðan sléttur með fjöllum sem líkja má við eyðimörk. Hitinn fór vaxandi og var um eftirmiðdaginn kominn í nálægt 30°C. Komið var inn í Reno í Nevada um fimmleytið og nú var ákveðið að fara í góða gistingu. Borgin birtist sem vin í eyðimörkinni með háhýsum, umvafin gróðursnauðum fjöllum. Um kvöldið var að sjálfsögðu haldið á spilavíti, en litlu eytt, og snætt á "buffet" að hætti heimamanna. Það voru saddir og þreyttir menn sem lögðu sig til hvílu það kvöld.

 

olieasyrider

 

 

 

 

 

 

 

 

                "On the road again" 

 

Dagur 5. 19. Maí. Reno í Nevada til Bishop í Kaliforníu. 240 mílur.

Vaknað var snemma á þurru björtum og hlýjum degi í Reno. Smávandræði voru með talstöðvarnar og hótelpöntun fyrir kvöldið, þannig að ekki var lagt af stað fyrr en fór að halla í 11 um morguninn. Reno er umlukin fjöllum og opnast dalurinn til suðurs. Ekið var að mestu á veg 395 sem fyrst er hraðbraut til Carson City. Sá bær sem á rætur sínar að rekja til Villta vestursins. Þaðan var ekið til Virginia City sem er gamall kúreka og gullgrafarabær uppi í fjöllum. Þar var mikið líf, mótorhjólamenn á helgarrúntinum sem keyrðu um þröngar götur í þessu litla bæ með gömlum húsum. Áfram var haldið suður veg 395 sem nú varð einbreiður að mestu og liðaðist gegnum djúpa dali með hrikaleg fjöll allt um kring. Vegurinn færðist svo út í eyðimörk milli fjallanna og hitinn fór að nálgast 30°C. Komið var til Bishop um kvöldmatarleytið og gist á Best Western Spa resort. Bishop er eins og vin í eyðimörkinni, og þar er mikið af ferðamönnum og margir góðir veitingastaðir. Einn slíkur var prófaður, Whisky Creek, og nú voru það stórsteikur á Ameríska vísu. Komið var við á krá heimamanna og þeir spurðir spjörunum úr. Flestir höfðu aldrei hitt mörlandann áður og vakti það mikla kátínu.

 

vidgerdir

 

 

 

 

 

 

 

 

                       "Viðgerðir"

 

Dagur 6. 20. Maí. Bishop í Kaliforníu til Las Vegas í Nevada. 340 mílur.

Það var fallegur og hlýr morgun á sléttunni umlukin háum fjöllum. Ekið var áfram veg 395 í gegnum lítinn bæ Indipendance og síðan til Lone Pine þar sem áð var í léttan málsverð og reiðskjótunum sinnt. Þá var ekið inn á veg sem fer í gegnum Death Valley. Sá vegur liðast í gegnum fjallendi og síðan ofan í djúpan stóran dalinn sem liggur að mestu undir sjávarmáli. Í Death Valley Þegar hér var komið fór hitinn hækkandi og náði mest 44°C í dalnum. Menn neyddust til að rífa af sér flestan hlífðarfatnað. Áð var á tveimur stöðum þar sem hlaupið var inn til að kæla sig og innbyrða vökva og síðan haldið hraðferð suður dalinn og lítið stoppað. Hér er alger eyðimörk, og fannst mönnum landslagið stundum minna á staði á Íslandi eins og Landamannalaugar. Ekið var greitt til að komast hærra upp í fjöllin þar sem hitinn fór lækkandi. Ekið var til Las Vegas í gegnum fjöll og dali og komið þangað seinnipart dags. Borgin birtist skyndilega í eyðimörkinni og þegar inn í hana var komið var umferðin mikil og hröð. Eftir smá vegvillur fannst gististaðurinn Golden Nugget hótel sem er miðsvæðis og ekki í minni kantinum jafnvel á Amerískan mælikvarða. Það voru þreyttir og sveittir ferðalangar sem fleygðu sér í kalda sturtu og fengur sér hressingadrykk, alsælir. Um kvöldið var farið niður í spilavítahverfið “The Strip” og borgin skoðuð. Þar ægir saman hótelum og spilavítum og fannst mönnum þeir um tíma vera komnir í Disneyland. Það var farið seint að sofa.

 

66mexico

 

 

 

 

 

 

 

 

Dagur 7. 21. Maí. Las Vegas í Nevada til Williams í Arizona. 240 mílur.

Það var vaknað seint, menn komust ekki af stað fyrr en að verða 11 um morguninn. Ekið var gegnum bæinn og heimsótt stærsta Harley Davidson umboð í heiminum. Þetta var eins og að koma til Mecca fyrir mótorhjólaáhugamenn. Áð var á "diner" og fengið sér amerískt í gogginn áður en haldið var af stað suður til Boulder City. Veðrið var fallegt, heiðskírt og fór að halla í 30°C þegar leið á daginn. Það var nauðsynlegt að létta á hlífðarfatnaðinum og var ekið á hlýrabolum yfir hádaginn. Hoover stíflan var skoðuð sem er um 35 km frá Las Vegas. Þetta er mikið mannvirki, byggt á árunum 1931 til 1936. Þar rennur vatnið um hrikalega gljúfur, milli hárra kletta og vegstæðið er þröngt. Það ver mikil umferð og fjöldi mótorhjólafélaga á ferð. Flokkur fólks á Harley Davidson var þar á ferð og tóku menn tali. Fór vel á með landanum og þeim félögum sem ekki voru kannski alveg sömu týpur, með skegg og á hlýrabolum, hjálmlausir, en það þykir flottara á þessum slóðum. Ekið var veg 93 til Kingman og þá birtist fyrirheitnalandið, þjóðvegur 66. ( Route 66 ) Á þjóðvegi 66 Þorstanum svalað.

hellsangels 

 Áð var á safni um þennan merka þjóðveg, sem flutti landnema til vestursins á árum áður og er nú verið að reyna að endurvekja til fyrra álits. Ekið var á þjóðvegi 66 gegnum nokkra litla smábæi og áð á gamalli þjónustustöð sem haldið hefur verið vel við. Landslagið tók nú breytingum varð flatara og útsýni betra. Það sást upp til Grand Canyon svæðisins um tíma. Þjóðveg 66 þraut að lokum og veður fór heldur kólnandi, komið niður í 23 gráður þegar síðustu mílurnar inn í Williams voru farnar þegar halla tók í 7 um kvöldið. Þreyttir ferðalangar fengu ágætis gistinu, þriggja herbergja “svítu” á móteli á hagstæðu verði. Eftir að hafa skolað af sér ferðarykið, var haldið á veitingastað heimamanna. Williams er lítill bær með mikla sögu, er á gömlu þjóðleiðinni og liggur í hæðóttu og skógivöxnu landi. Það voru sælir ferðalangar sem lögðu sig til hvílu, tilbúnir að takast á við nýjan dag af ævintýrum ,en nú skildi haldið til Miklagljúfur, eitt af undrum veraldar.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband