Dagur 8 - 14

 

Dagur 8. 22. Maí. Williams í Arizona, Grand Canyon , Falgstaff Arizona. 180 mílur.

Eftir góðan nætursvefn var haldið af stað um kl 10 um morguninn. Góður amerískur morgunmatur á veitingastað, tekið bensín og svo haldið af stað. Vegurinn upp til Grand Canyon er í fyrstu í skógi ,en síðan í meira kjarri vöxnu landslagi. Eftir u.þ.b.70 mílna akstur í heiðskíru og hlýju verðri. Það var hægur vandi að vera á léttum bol á þessari leið. Vegurinn fór upp í um 6000 fet yfir sjávarmáli þegar nær dró. Ekið var inn í þjógarðinn, sem er mjög vel skipulagður, og var aðgagnseyrir $10. Eftir stuttan akstur var komið á suður brún (South rim) Miklagljúfurs. Útsýnið var mildilega sagt, stórkostlegt, og mikil dýpt og litarbrigði í landslaginu. Við félagarnir stóðum lengi agndofa og mynduðum í gríð og erg. Breiddin var allt að 17 km. Og dýptin allt að 1,6 km. Grand Canyon Ekið var eftir suðurbrúninni, þar til sást inn í eyðimörkina fyrir norðan. Ekki gekk ferðin vandræðalaust. Stór og feitur ameríkani á stórum húsbíl tókst að bakka á hjól Guðmundar Bjarnasonar og rispa það og fella. Brást hann ókvæða við að við skyldum vera að þvælast fyrir honum, og taldi sér málið óviðkomandi. Með hökuna niður í bringu fórum við félagar í hjálparleit hjá þjóðgarðsvörðum. Í fylgd eins þeirra var kauði eltur uppi. Hann neitaði öllu og var þá hótað handtöku af verðinum, sem er lögreglan á staðnum. Sáu félagar fyrir sér þann feita liggja á grúfu á malbikinu með handjárn fyrir aftan bak. En til þess kom þó ekki og var tekin skýrsla af honum eftir að hann hafði róast. Hjólið var vel ökufært og héldu menn áfram ótrauðir. Þegar út úr þjóðgarðinum var komið var ekið gegnum friðland Navajo indíána. Í fyrstu klettótt landslag en síðan runnar og að lokum skógur. Á tímabili fannst mönnum þeir vera komir í Skagafjörðinn með þýfðum gresjum og bláum fjallasal í fjarska. Það hefði vel getað verið ef hitinn hefði ekki verið í nánd við 30°C í eftirmiðdagssólinni með óvenju fallegum litabrigðum á landslagið. Komið var inn í Flagstaff um 6 leytið, tekið bensín, keypt hressing og haldið á Great Western pony solider mótelið. Eftir að hafa frískað sig til, fengið sér hressingu og kíkt á tölvupóstinn var snætt á Horse lounge veitingastaðnum sem er í kúrekastíl. Rétt fyrir svefninn stauluðust þreyttir ferðalangar inn á Museum club kránna, í göngufæri, eins gott. Eftir að hafa sinnt ferðasöguskrifum og myndsendingum duttu menn í dúnalogn og vöknuðu ekki við Santa Fe flutningalestirnar sem þeyttust gegnum bæinn um nóttina. 

 

 grandcanyon

 

Dagur 9. 23. Maí. Flagstaff Arizona til Gallup í Nýju Mexico. 220 mílur.

Það var heitt um nóttina í herberginu. Við vöknuðum við nið Santa Fe flutningalestarinnar sem flautaði hátt í morgunsárið. Menn komust af stað um 11. leytið eftir að hafa farið á pósthús og sent hlýju fötin sín niður til Flórida þangað sem ferðinni er er heitið. Þetta var nauðsynlegt því hitastigið fer hækkandi, rakinn vaxandi og farangursrými takmarkað. Ekið var um þjóðveg 66 út úr Flagstaff og inn á hraðbrautina. Við sveigðum af veginum eftir um 18 mílur við Meator Creater sem er gígur sem varð til þegar loftsteinn féll til jarðar fyrir um 50 þúsund árum síðan. Aðgangseyrir var $10 og þótti mönnum dýrt, var dvalið lengi til að nýta sér þann eyri. Gígurinn er 1200 m í þvermál og er talið að loftsteinninn hafi verið 150 fet í þvermál og innihald hans um 90 % járn. Þetta var stórkostleg sýn, og náðu menn að skoða safn því tengt, en vildu helst ekki veralengi úti í rúmlega 30°hita. Við rákumst á tvær svissneskar miðaldara stúlkur í rúmum meðalholdum á tveimur Harley Davison hjólum, þær höfðu leigt hjólin í Chicago og ætluðu til Los Angeles, að mestu á þjóðvegi 66. Þær höfðu leigt hjólin á $150 á dag og voru alsælar. Við héldum áfram hraðbrautina ( I 40) til Holbrook þar sem áð var og mönnum og farskjótum sinnt. Leiðin lág síðan eftir vegi 180, um 18 mílur þar til við komum að Petrified forrest national park ( Steingerði skógurinn). Þegar inn var komið blasti við sandauðn og síðan það sem virtust vera trjástólpar sem lágu á við og dreif. Sitjandi á steingerðum trjám Þegar nánar var að gáð kom í ljós að trén voru steingerð. Menn voru sammála um að þeim fannst þeir geta verið staddir í Kaldadal, ef undanskilið var 30°hiti á C.

 

steingtre

 

Við ókum síðan áfram til staðar sem heitir Painted desert. Þar var landslagið hrikalegt og litríkt. Þegar líða tók á daginn ókum við í eftirmiðdagsylnum inn til bæjarins Gallup þar sem gist var á Best Western Royal Holiday mótelinu. Landslag breyttist í sandsteinskletta og fólkið sem við sáum varð dekkra á húð. Við áðum í stórmarkaði í Gallup, og var greinilegt að hér eru menn ekki við eins mikil efni eins og annarstaðar í Bandaríkjum N Ameríku. Fólkið var verr klætt, bílarnir eldri og verðlagið lægra. Í fyrsta skipti á ferð okkar varð á vegi okkar betlari sem bað um skiptimynt, fólkið er dökkt og balndað af Mexikönum og Indíanum. Menn voru þreyttir og sælir enda komnir um hálfa vegu yfir meginland N Ameríku og það var að sjá á tölvupóstinum að margir heima fylgdust spenntir með ævintýri okkar félaga. Farið var á Mexikanskan veitingastað og borðaður (mjög) sterkur góður matur með öllu tilheyrandi. Menn lögðust til hvílu þreyttir og sælir eftir ánægjulegan dag, en kíktu á tölvupóstinn og myndbandsupptöku dagsins áður en Óli Lokbrá tók völdin.

 

Dagur 10. 24. Maí. Gallup í Nýju Mexicó til Santa Fe í Nýju Mexicó. 240 mílur.

 Ferðalangar voru frekar stirðir og þreytti í morgunsárið, enda búnir að vera fram á nótt við að koma efni frá leiðangrinum til þjálfarans. Ekki bætti úr að mexikanski maturinn og tilheyrandi vökvar heimamanna höfðu áhrif á meltinguna. Þannig urðu tíðar heimsóknir á náðhúsið, áður en lagt var í hann um 11. leytið. Það var sól, heiðskírt og um 25°C hiti. Vegurinn framhjá gististaðnum er gamli þjóvegur 66. Við ókum hring um bæinn og héldum síðan suður á bóginn veg 602 á verndarsvæði Zuni indíana. Landaslagið var hæðótt með sandsteinsklettum og runnum. Landslagið gæti helst líkst Tocana héraði á Ítalíu, en þó nokkuð fátækara af gróðri. Öðru hverju brá fyrir smá byggðarkjörnum hjólhýsa og bílhræja og rusl á víð og dreif. Við ókum síðan í austur á veg 53. Hitinn fór hækkandi og fór yfir 30°C. Smám saman fóru góðviðris Cumulus ský að hrannast upp og rakinn fór vaxandi. Við áðum á litlum veitingastað í þorpinu Ramah og fengum okkur fæði heimamanna. Við hittum þar ungar Navajo indíanakonur sem sögðu okkur frá sögu svæðisins og töluðu þær fyrir okkur Navajo tungumálið. Það er algerlega óskiljanlegt og sögðu þær að í seinni heimstyrjöldinni hefði það verið notað af bandamönnum sem dulmál. Þá var ekið áfram að El Morro minnismerkinu.

riddarar

               "Riddarar götunnar..."  

Nú fór landslagið að breytast og háir sandsteinsklettar, sem urðu gulbrúnir í sterkri sólinni. Minnismerkið er um þá fjölmörgu landkönnuði sem ferðuðust um þessar slóðir á 18. öldinni. Þá ókum við áfram að eldgíg og íshellum sem eru á þessu svæði. Við fórum yfir það sem kallað er “Continental divide” en það er lína sem dregin er yfir meginland N Ameríku frá norðri til suður og falla allar ár þaðan til sitthvorar áttar. Þannig vorum við í raun við upptök Missisippi fljótsins sem við eigum eftir að heimsækja síðar. Við ókum norður að hraðbraut 40 og þjóðvegi 66. Á þessum tíma breyttust Cumulus skýin í Nibostratus þrumuský og sáum við rigna í fjöllum í fjarska. Okkur kom í hug kvæðið “á Sprengisandi" þar sem við ókum greitt á flótta undan rigningunni. Hitinn og rakinn fór vaxandi og þegar við ókum inn í Albuquerque var orði vel heitt. Við áðum menn og brynntum farskjóttum og héldum áfram ferðinni. Inni í miðborginni voru vegaframkvæmdir í gangi á hraðbrautarmótunum og lentum við í umferðaröngþveiti. Þegar við vorum í röðinni fór hitinn yfir 40 stig á C. Við flýttum okkur norður hraðbraut 25 og nú fór hitauppstreymið (Termic) að segja til sín, miklir sviptivindar voru frá vestri og áttu menn fullt í fangi veð að halda æskilegri aksturslínu. Ekki bætti úr skák að stórir flutningabílar óku fram úr okkur á mikilli ferð. Við vorum fegnir þegar við komum inn í Santa Fe á undan rigningunni og á góðum tíma til að geta slakað á og teygt úr okkur. Við fengum ágætis gistingu á Fairfield Inn og rukum upp á herbergi, drógum af okkur stígvélin og fötin. Fartölvan var tekin upp og náðum við strax sambandi við Alnetið

 

pistlaskrif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lykt sem flestum konum finnst "sjarmerandi" fyllti herbergið. Við skelltum okkur í sturtu og hrein föt . Jú viti menn næstum 600 manns eru búnir að kíkja á heimasíðuna okkar, við vorum agndofa ! Þar að auki voru margir búnir að senda okkur baráttukveðjur, sem flestar gengu út á það að menn óskuðu þess að þeir væru með okkur á ferðalaginu. Við fengum okkur hressingu sælir og glaðir að vera komnir á áfangastað.

 

Dagur 11. 25. Maí. Santa Fe í Nýju Mexico til Amarillo í Texas. 310 mílur.

Borgin Santa Fe er í 7000 feta hæð og liggur umvafin skógivöxnu hlíðum og fjöllum í norður. Til suðurs er opið út í eyðimörkina. Hér réðu Mexikanar ríkjum í þar til í byrjun 19. aldar, og sjást enn glögg merki um veru þeirra þar. Borgin er öll lágreist og í gömlu miðborginni eru fjöldi húsa sem byggð voru af Mexikönum á sínum tíma. Við fórum einn rúnt í borginni á leið okkar áfram og hittum þar heimamenn sem sögðu frá sögu borgarinnar. Haldið var suður og austur hraðbraut 25 og var frekar svalt í lofti, um 18ºC en heiðskírt og sól. Á leið okkar til bæjarins Las Vegas, var ekið niður af hálendinu og á fáeinum mílum vorum við komnir niður í um 4000 feta hæð yfir sjáfarmáli, það fór heldur hlýnandi og nú fórum við smám saman að yfirgefa úfið fjallendi og komum yfir á sléttlendi. Með fjöllin að baki tóku við endalausar sléttur á leið okkar til Texas. Við tókum veg 104 frá Las Vegas til Tucumcari. Hann hlykkjaðist um hæðótt landslag í fyrstu, síðustu sandsteinsklettanna á leið okkar og svo niður á sléttlendið. Frá Tucumcari , tókum við gamla þjóðveginn #66 sem lág að mestu meðfram hraðbrautinni. Þar gat að líta gamlar yfirgefnar bensínstöðvar og hótel.

 

route66

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir að hafa áð úti á sléttunni, héldum við áfram á vegi 66 sem nú varð skyndilega af malarvegi. Hér var einn elsti hluti leiðarinnar, gegnum yfirgefnar sveitir. Það var greinilegt að sum húsin og bílarnir höfðu ekki verið hreyfð áratugum saman. Menn fengu smá Enduro tilfinningu á gömlum ósléttum malarveginum, og héldum við að hann myndi aldrei taka enda. Fákar og menn fengu stutta aðhlynningu, því óveður væri í aðsigi. Úr norðvestri komu dökk þrumuský og rigning í fjarska. Á leið okkar á hraðbraut 40 inn til Amarillo leið mönnum á tíma eins og í atriði úr myndinni Twister, þar sem við vorum á flótta undan óveðrinu, með þung ský og rigningu í speglunum og sól framundan. Hitinn var um 26 gráður og rakinn fór vaxandi. Það var talsverð umferð og það kom okkur á óvart hvað stóru trukkarnir óku hratt, kannski voru þeir á saman flótta og við. Það stóð heima að þegar við komum inn í Amarillo fóru fyrstu droparnir að falla. Við komust með dótið okkar inn á gististað og síðan varð úrhelli. Það stóð reyndar ekki nema í klukkutíma og á meðan gátum við hvílst, kíkt á tölvupóstinn og gert okkur klára fyrir kvöldverðinn. Það var gaman að sjá hvað margir höfðu skoðaða heimasíðuna og það fyllti menn baráttuhug. Við höfðum nú farið yfir tvö tímabelti það fyrra í Nýju Mexíco og nú aftur í Texas. Á þjóðvegi 66 í Mexico Þreytan var aðeins farin að segja til sín, en menn kvörtuðu ekki. Það hefði verið gott að fá einn hvíldardag, því það tekur á líkama og sál að ferðast yfir heilt meginland á þennan hátt. En það er þess virði og stemningin er góð í hópnum. Að sjálfsögðu urðum við að kynnast hvernig þeir elda nautasteik hér á slóðum og var það gert á Outback Steakhouse. Hér þurftum við að fá leyfi til að fá okkur vín með matnum því við erum "á þurru svæði" sem er ein fermía á stærð. Já Ameríka er einstök. Við fórum heim, kláruðum pistilinn og sendum myndirnar til þjálfarans. Þá datt allt í dúnalogn, menn voru uppgefnir og sofnuðu glaðir og sælir tilbúnir að takast á við nýjan dag.

 

Dagur 12. 26. Maí. Amarilllo í Texas til Oklahoma City. 265 mílur.

 Menn voru þreyttir og stirðir í morgunsárið. Það var greinilegt að ferðalagið er aðeins farið að taka á. Amarillo í Texas á rætur sínar að rekja til nautgriparæktar á svæðinu. Þarna mætast tvö járnbrautarleiðir, þar sem Santa Fe lestarkerfið liggur frá austri til vesturs. Borgin hefur vaxið hratt á seinustu áratugum og dreifir sér nú yfir talsvert landsvæði. Við hófum morgunaksturinn á því að heimsækja “Cadillac ranch", en það er stutt utan við borgina. Þar hefur 10 kadiljákum verið raðað hálfum ofan í jörðina, með sama halla og Keops pýramídinn. Margir hafa séð mynd af þessu fyrirbæri, en raunveruleikinn er allur annar. Frekar sóðalegt umhverfi og búið að kveikja í vögnunum og mála þá með veggjakroti. Við hittum þarna ungt par frá Illinois á sitthvoru hjólinu, Tracy á Victory frá Polaris og John á HD. Þau voru að koma að austan og sögðu okkur frá skemmtilegu safni “Devil´s rope", sem við áttum eftir að heimsækja seinna um daginn.

 Screen Shot 2012-10-01 at 20.30.14

Við ókum út úr Amarillo á hraðbraut 40 í björtu veðri og hitinn um 16ºC. Okkur fannst það frekar svalt, en fljótlega fór hlýnandi. Við ókum um 40 mílur í austur, þar til við komum að risastórum krossi við veginn. Þar hafa kristinn trúarsamtök reist 190 feta háan kross og gert fallegt svæði með bronsstyttum þar í kring af Jesú Kristi og píslargöngu hans. Við áðum þar góða stund og fegnum góða lýsingu umsjónarmannsins á tildrögum þessa staðsetningar. Veður fór nú heldur hlýnandi, fór yfir 20ºC og við tókum eldsneyti á farskjótana. Við ókum austur og reyndum nú að þræða sem mest af þjóðleið 66 sem liggur þar um slóðir að mestu meðfram hraðbrautinni. Það er siður mótorhjólamanna að heilsast þegar þeir mæta, með því að rétta út höndina þegar þeir mætast. Þetta gera þó síst hörðustu Harley töffararnir sem heilsa nú ekki hverjum sem er, sérstaklega ekki Vespudrengjum eins og okkur. On the Road Again... Við áðum í McLean í Texas við gamla þjóðveginn. Sá bær er einn af mörgum sem liggja við gamla þjóðveginn. Þeir erum með u.þ.b. 40 mílna millibili á þessum slóðum, og skýringin er sú að það var dagleið sem hægt var að fara á hestum og kerrum á tímun kúreka. Við heimsóttum “Devil´s rope“ safnið.

 

Screen Shot 2012-10-01 at 20.33.29

 Þar gengur allt út á gaddavír, tilurð hans, framleiðslu og sögu. Þetta er merkilegt nokk eina safnið sinnar tegundar í heiminum. Bærinn man fífil sinn fegri, þar eru yfirgefnar bensínstöðvar, veitingastaðir og mótel. Einn staður hefur þó lifað þetta af og heitir hann Red River Inn. Við áðum þar og fengum okkur hamborgara að hætti Texas búa, stór var hann og bragðmikill. Það var lifandi kúrekatónlist á staðnum, eigandinn, miðaldara kona tók fyrir okkur lagið. Við héldum áfram að fylkismörkum Oklahoma. Hér er landslag slétt, en við fylkismörkin fer að bera meira á bugðóttu grasivöxnu landslagi og smám saman er meira af trjágróðri. Þeir kalla þetta “rolling hills“ heimamenn.

 

Screen Shot 2012-10-01 at 20.35.56 

 

Við áðum stutta stund í sólbaði ,og hitinn fór hækkandi upp í allt að 30ºC, og við héldum áfram. Með eftirmiðdagssólina í bakið ókum við aðalega á hraðbrautinni en einnig eldri hluta þjóðleiðar 66, þráðbeinan mjóan steyptan veg sem elti hóla og hæðir gegnum trjágróðurinn. Við komum að útjaðri Oklahoma borgar um sexleytið og fundum okkur gistingu á, ágætis móteli, Harish Patel Comfort Inn. Það voru þreyttir en sælir ferðalangar sem skelltu sér í sturtu, fengu sér steik í gogginn og sofnuðu fyrir framan sjónvarpið.

 

Dagur 13. 27. Maí. Oklahoma City til Fort Smith í Arkansas, 220 mílur.

Við vöknuðum hvíldir og hressir eftir góðan nætursvefn. Við héldum af stað um níu leytið í björtu og sæmilega hlýju veðri, um 20º á C. Við héldum austur á hraðbraut 40, og yfirgáfum nú gömlu þjóðleið 66 sem við höfðum fylgt um 1300 mílur. Við ókum fyrir sunnan Oklahoma City að vegmótum sem þeir kalla Americas corner, eða vegamót N Ameríku. Hér mætast hraðbrautir nr. 40 sem liggur austur vestur og nr. 35 sem liggur norður suður. Það var þægileg umferð á sunnudagsmorgni og þegar austur kom fór að bera meira á gróðri og raki í lofti fór vaxandi. Við ókum fram úr Harley töffara með klút og sólgleraugu sem einan hlífðarfatnað og kvaddi hann okkur með handarsveiflu þegar hann yfirgaf hraðbrautina. Við áðum tvisvar á leiðinni að fylkismörkum Arkansas og nú fór hiti og raki vaxandi. Á þessu svæði er verndarsvæði Cherokee indíana. Við komum til Fort Smith upp úr hádegi og ákváðum að hafa rólegan eftirmiðdag, enda þurfti að þvo farskjótta og fatnað reiðmanna. Við fundum ágætis gistingu á Days Inn í miðbænum og fórum nú að líta í kringum okkur. Það kom í ljós að á sunnudegi var ekki mikið um að vera í þessum bæ sem þekktastur er fyrir að hafa verið staðsetning gamals virkis sem þáverandi Bandaríkjamenn reistu. Þetta var útstöð áður en komið var að lendum indíána. Þar að auki er s.k. Memorial day helgi, þar sem mánudagurinn er frídagur til heiðurs hermönnum Bandaríkjamanna. Nota margar fjölskyldur hér tækifærið til að hittast, og ferðast oft langan veg. Við vorum greinilega ekki á slóðum ferðamanna,því ekkert líf var í bænum annað en nokkrir gamlir rónar sem sníktu af okkur fjórðung úr dal (Quarter). Við kíktum á gamla virkið og minjar því tengdu. Nú vorum við komnir í annað loftslag, nú varð heitt og mjög rakt. Ekki var veitingastað að finna opin, og engan bjór mátti selja svo og pöntuðum við pítsu og Pepsi sem við snæddum út á verönd þar sem við dáðumst að nýþvegnum fákunum tilbúnum að takast á við nýjan spennandi dag á þessu ævitýraferðalagi.

 

Dagur 14. 28. Maí. Fort Smith í Arkansas til Dumas í Arkansas. 250 mílur.

Það hafði rignt um nóttina. Loftið var hreint og létt þegar við risum úr rekkju. Það var Memorial day í Bandaríkjumum og við tókum þátt í hátíðarhöldunum. Skrúðganga fór fram hjá mótelinu okkar að Amerískum hætti, með öllu tilheyrandi, Miss Arkansas, löggubílum, hestum og miklum skrúða. Við fylgdust með en komumst við ekki neitt út af umferð. Korter í ellefu voru götur auðar og við gátum haldið áfram. Memorial day.

skrudganga 

 

Við tókum bensín og héldum nú suður fjarri streitu hraðbrautarinnar og út í sveit. Við tókum veg 71 og síðan 270 til Hot Springs. Á þessari leið fórum við í gegnum Ouachita skógin, mjög fallega leið þar sem vegurinn hlykkjast um skóginn. Það var greinilegt að við vorum komnir sunnar, hér er laufskógur og heitt og rakt. Falleg leiðin sveigir um hóla og hæðir og malbikið er slétt og kjörið til mótorhjólaaksturs. Þegar leið á daginn fór hitinn yfir 30ºC. Það var sól en í fjarska voru dökk rigningaský. Við áðum í Hot Springs, sem að er gamall heilsubær. Ferðaiðnaðurinn hefur þó farið höndum sínum um hann og þynnt út hið upprunulega markmið heilsulindanna, sem nú er stílað inn á skemmtun og afþreyingu. Við fengum okkar lélegustu og hlutfallslega dýrustu máltíð hingað til í hádegishléinu, og flýttum okkur í burtu. Við ætluðum að ná til Missisippi fljótsins fyrir kvöldhlé, en það náðist ekki. Kirkjum fór fjölgandi, og það var greinilegt að Biblíubeltið nálgaðist. Á tveimur stöðum fór vegurinn beint í gegnum kirkjugarða. Vegurinn sniglaðist gegnum smáþorp, fólkið varð dekkra á hörund, málið illskynjanlegra, og fátæklegri hús voru nú við veginn. Við erum komnir djúpt inn í Suðurríki Bandaríkjanna.

Við fórum gegnum þorp þar sem við hefðum sennilega haldið áfram ef það hefði sprungið hjá okkur. Það varð þungbúnara í lofti og við ókum niður veg 65 í suður þar sem greinilegt var að hellirignt hafði skömmu áður. Við náðum löngu eftir eðlilegan vinnutíma áhafnarinnar til gistingar í Dumas, þar sem við komust inn áþokkalegt mótel. Það reka Pakistönsk hjón sem komin eru til að freista gæfunnar hér vestra. Það var löngu liðið fram yfir eðlilegan hressingartíma og ekkert annað að gera en að setjast úti fyrir framan herbergið og fákanna í kvöldmollunni, og panta pítsu. Hún kom að vörmu spori og gátum við setið út þar til moskítóflugurnar fóru að angar okkur. Á morgun skildi haldið yfir fljótið mikla og í gegnum fylkið Missisippi. Það var kominn aukinn hugur í menn enda farið að styttast í lokatakmarkið, Orlando í Flórida, en við höfum nú ekið um 3400 mílur eða um 5500 km. Menn lögðust fyrir framan sjónvarpið og sofnuðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband